Fréttir

Orkuveitan og BioKraft í samstarf um vindorku
20/05/2013 Biokraft

Orkuveitan og BioKraft í samstarf um vindorku

 

Orkuveita Reykjavíkur hefur samið við BioKraft ehf. um kaup á rafmagni frá tveimur vindmyllum sem fyrirhugað er að reisa í Þykkvabænum. Jafnfram felur samningurinn í sér að Orkuveitan fær aðgang að upplýsingum um uppbyggingu og rekstur mylnanna, sem nýst geta fyrirtækinu við frekari þróun raforkuvinnslu úr vindorku.
Það voru þeir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, og Steingrímur Erlingsson, stofnandi BioKraft, sem skrifuðu undir samning þessa efnis á föstudag.
Myllurnar tvær eru danskar af gerðinni Vestas og 600 kílóvött hvor. Þær verða reistar í sumar og gangsetning þeirra áformuð á haustdögum.
Orkuveitan hyggst selja raforkuna á almennum markaði. Um helmingur þeirrar raforku sem fyrirtækið selur á almennum markaði er nú keypt af Landsvirkjun. Um helming framleiðir Orkuveitan sjálf í virkjunum fyrirtækisins. Þá kaupir fyrirtækið raforku frá nokkrum smáum vatnsaflsvirkjunum víðsvegar um land.